Ertu að kaupa?

Ef þú hefur hug á því að kaupa fasteign veitum við þér víðtæka þjónustu sem mun spara þér bæði tíma og fyrirhöfn og í mörgum tilfellum beinharða peninga, enda er mikilvægt að kaupandi fari í öllu að lögum og hugi að öllum smáatriðum sem tryggja að hagsmunum hans sé borgið.

Eftirfarandi er innifalið í þjónustu okkar við kaupendur:

Að finna réttu eignina

Eftir að samningur er gerður sem m.a. felur í sér lýsingu á æskilegri eign förum við í að leita að réttu eigninni, bæði í eigin gagnagrunni og hjá öðrum fasteignasölum. Um leið og við finnum eign sem gæti hentað sendum við kaupanda lýsingu á henni og frekari upplýsingar. Mikilvægt er að hafa í huga að góðar eignir seljast oft fljótt og því þarf leitin að vera virk á öllum tímum svo minni líkur séu á að rétta eignin gangi úr greipum kaupandans.

Lítist kaupanda á eign sem við sendum honum lýsingu á og vilji skoða hana sjáum við um að koma því í kring með því að bóka skoðunartíma.

Að skoða eignina og meta hana

Á kaupanda fasteignar hvílir rík skoðunarskylda og í þeim efnum er að mörgu að hyggja. við komum því með kaupanda að skoða eignina og tryggi að fullnægjandi svör fáist við réttu spurningunum og að fyrir liggi allar upplýsingar sem lúta að markaðsvirði, ástandi eignar, hússjóði, framtíðarviðhaldi, áhvílandi veðböndum og öðru því sem miklu máli skiptir að sé skoðað vel áður en hugað er að kauptilboði.

Í sumum tilvikum getur reynst nauðsynlegt að láta ástandsskoða eignina sérstaklega af viðurkenndum fagmanni og munum við þá hafa milligöngu um að útvega slíka skoðun. Ástandsskoðun er oft nauðsynleg ef um eldri eign er að ræða og/eða seljandi þekkir e.t.v. ástand hennar ekki nógu vel.

Að gera kauptilboð

Finni kaupandi eign sem hann hefur hug á að bjóða í aðstoðum við hann við uppsetningu kauptilboðsins og gætum þess að bæði lögum sé framfylgt og að hagsmunir kaupanda séu tryggðir í öllu. Við veitum góð ráð varðandi upphæð tilboðsins og þá fyrirvara sem setja þarf. Mikilvægt er að hafa í huga að kauptilboð á fasteignum eru skuldbindandi og ef réttu fyrirvararnir eru ekki settir, og kaupandi hættir við kaupin, getur hann orðið skaðabótaskyldur gagnvart seljanda.

Að gera kaupsamning

Fari svo að kauptilboði er tekið þarf að gera kaupsamning. Við veitum kaupanda faglega ráðgjöf við gerð hans og mætum með honum til undirritunar til að tryggja að samningurinn sé samkvæmt lögum og að ekki hafi verið sett inn í hann ákvæði sem rýra hag kaupandans. Verði einhverjar breytingar á samkomulagi á milli kaupanda og seljanda í kaupferlinu þurfa þær einnig að koma skýrt og skriflega fram í samningum og munum við tryggja að svo sé, ætíð með hagsmuni kaupandans að leiðarljósi.

Að fá afsalið

Þegar kaupverð fasteignar er að fullu greitt samkvæmt kaupsamningi á kaupandi rétt á að fá í hendur afsalið fyrir eigninni. Oftast á afhending afsalsins sér stað á skrifstofu þess fasteignasala sem seldi eignina og um leið fer fram margháttað lokauppgjör milli kaupanda og seljanda. Við munum fyrir hönd kaupanda fylgjast með að afsalið verði tilbúið og afhent á réttum tíma og ef kaupandi hefur eitthvað að athuga við uppgjörið munum við fara með honum yfir það og tryggja að hagsmunum hans sé að fullu borgið.

Hvað kostar þessi þjónusta?

Ofangreind þjónusta kostar frá 0 kr. upp í 150.000 kr. með virðisaukaskatti, allt eftir því hvað kaupandi vill hafa innifalið í þjónustunni. Við undirritun er þjónustusamningurinn orðinn bindandi fyrir báða aðila. Þjónustan skal greidd við undirritun kaupsamnings fasteignar, en samt eigi síðar en 30 dögum eftir að þjónustusamningurinn var undirritaður. Ákveði kaupandi að hætta við kaup innan 30 daga greiðir hann aðeins helming af umsamdri upphæð.